Enski boltinn

Lýsti Haaland sem „of­dekruðum krakka“

Sindri Sverrisson skrifar
Erling Haaland fór á kostum gegn Wolves um helgina.
Erling Haaland fór á kostum gegn Wolves um helgina. Getty/Chris Brunskill

Roy Keane heldur áfram að skjóta föstum skotum á Erling Haaland, stjörnuframherja Manchester City, og lýsti þessum markahæsta manni ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta sem „ofdekruðum krakka“ um helgina.

Haaland fór á kostum fyrir City og skoraði fernu í 5-1 sigrinum gegn Wolves á laugardaginn. Þar með hefur hann skorað 25 mörk í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni, og stefnir á að verða markakóngur annað árið í röð.

Haaland sýndi hins vegar stjóranum Pep Guardiola óánægju sína með það að vera tekinn af velli á 82. mínútu á laugardaginn, og það vildi Keane gagnrýna:

Við sáum Haaland vera tekinn af velli og hann hagaði sér eins og ofdekraður krakki [e. spoiled brat]. En þegar þeir vinna leiki og hann skorar mörk þá gleymist þetta næstum því,“ sagði Keane í þætti á Sky Sports.

Þáttastjórnandinn Dave Jones grínaðist með að það væri nú kannski í lagi að láta eins og ofdekrað barn ef maður skoraði fjögur mörk en Keane svaraði: „Nei, það er ekki í lagi.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn í vetur sem að Keane gagnrýnir Haaland. Eins og flestir vita eiga Keane og pabbi Haalands, Alf-Inge, sína sögu frá því að Keane meiddi hann alvarlega með skelfilegri tæklingu á sínum tíma.

Hvort að þeirra forsaga hefur einhver áhrif er óvíst en Keane hefur í það minnsta ekki sparað stóru orðin þegar kemur að Haaland yngri. Í mars sagði Keane að markahrókurinn spilaði eins og leikmaður úr D-deildinni. City hafði þá gert markalaust jafntefli við Arsenal.

„Fyrir framan markið er hann bestur í heimi en almenna spilið hjá honum er svo dapurt. Hann er eins og D-deildarleikmaður, þannig sé ég það,“ sagði Keane á sínum tíma.

Haaland var spurður út í Keane eftir leikinn á laugardag og svaraði: „Mér er eiginlega sama um þann mann svo að það skiptir mig ekki máli hvað hann segir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×